Hér eru nokkrar sárasaklausar og gráglettnar gamansögur af lögfræðingum. Vonandi færa þær bros á andlit þitt og bæta örlítilli gleði við daginn.

 

Hefurðu heyrt um nýja örbylgjulögfræðinginn?
Þú eyðir átta mínútum á skrifstofunni hans og færð svo reikning eins og þú hefðir verið þar í átta klukkustundir!

 

– Ég held að lögfræðingur minn hafi eingöngu áhuga á að græða peninga.
– Af hverju segirðu það?
– Jú, það stendur í gjaldskránni á vefsíðunni hans: „Fyrir að vakna á nóttunni og hugsa um málið þitt í fimm mínútur: 10.000,- kr.“

 

Dag einn var lögmaður nokkur á ferð í limósínu. Þegar hann sá tvo menn í vegkantinum, að éta gras, bað hann bílstjórann um að stöðva bifreiðina. Svo gekk hann að öðrum manninum og spurði af hverju hann væri að éta gras.
– Ég er svo svangur og á enga peninga fyrir mat, svaraði maðurinn.
– Komdu heim með mér, sagði lögmaðurinn. – Ég skal seðja hungur þitt.
– En ég á konu og fjögur börn, þau eru þarna við lækinn, sagði maðurinn.
– Ekkert mál, við tökum þau líka með, sagði lögmaðurinn og sneri sér að hinum manninum og sagði honum að koma líka með fjölskylduna sína.
 Svo settist hann inn í limósínuna ásamt öllum skaranum, sem var ekkert mál því nægt var plássið.
Þegar þau voru lögð af stað sagði annar maðurinn: – Þakka þér kærlega fyrir, þú ert góður maður, við stöndum öll í þakkarskuld við þig!
Þá svaraði lögmaðurinn: – Nei, ekkert að þakka. Ég er bara ánægður að geta lagt ykkur lið. Þar að auki þá er grasið í garðinum mínum miklu hærra og betra en það sem er hérna!
😃
Hvað?
Áttirðu virkilega von á sögu sem myndi enda vel og ylja þér um hjartaræturnar … um lögmann?
 

Farþegar í flugvél nokkurri fengu tilkynningu í hátalarakerfinu um að allir þyrftu að spenna öryggisbeltin. Vegna vélarbilunar væri verið að undirbúa nauðlendingu. Nokkrum mínútum síðar spurði flugstjórinn áhöfn farþegarýmisins hvort allir væru tilbúnir.
– Hér er allt að verða klárt, svaraði yfirflugfreyjan. – Allir með spennt belti … nema lögfræðingur í þriðju sætaröð, sem er enn að dreifa nafnspjöldum til allra hinna farþeganna!

 

Jónas var ákærður fyrir að stela Mercedes Benz-bifreið og eftir löng réttarhöld var hann sýknaður. Seinna sama dag kom Jónas aftur til dómarans sem hafði dæmt í málinu og óskaði eftir að kæra lögfræðinginn sinn fyrir brot á siðareglum.
– Af hverju í ósköpunum? spurði dómarinn hissa. – Hann fékk þig sýknaðan. Fyrir hvað viltu ákæra hann?
– Sko, svaraði Jónas, ég átti engan pening til þess að greiða lögfræðireikninginn, svo hann hirti af mér Benzinn sem ég hafði stolið!

 

Tveir laganemar fóru á kaffihús og pöntuðu hvor sinn kaffibollann. Þeir settust síðan við borð, tóku upp samlokur og ætluðu að gæða sér á, en eigandinn flýtti sér til þeirra og sagði höstuglega:
– Það er alveg harðbannað að borða sinn eigin mat hér á kaffihúsinu!
Laganemarnir voru snöggir að hugsa, skiptust á samlokum, og borðuðu þar með samloku hvors annars.

 

Hafnfirski dómarinn, við konuna sem bar vitni í sakamáli:
– Ég minni þig á, í siðasta sinn, að segja satt og rétt frá! Þú getur ekki haldið því fram að þú eigir tvo bræður, þegar bróðir þinn, sá ákærði, hefur svarið að hann eigi bara einn!

 

Ég: – Nágranninn skuldar mér 500.000 kr.
Lögfræðingurinn: – Ertu með skuldaviðurkenningu frá honum um það?
Ég: – Nei.
L: – Sendu honum rukkun um fimm milljónirnar sem hann skuldar þér.
Ég: – En það eru bara 500.000 krónur!
L: – Nákvæmlega — og hann mun svara þér þannig. Þá ertu kominn með skuldaviðurkenningu frá honum!

 

Af hverju eru lögfræðingar svona feitir?
Vegna þess að þeir  borða alltaf á milli mála!

 

Lögfræðingur nokkur deyr og fer beint til himna. – Það hljóta að hafa orðið einhver mistök hérna, segir hann. Ég er allt of ungur til að deyja. Ég er aðeins 55 ára gamall.
– 55 ára? spyr Lykla-Pétur hissa. – Nei, samkvæmt okkar niðurstöðum ertu 89 ára gamall.
– Hvernig fáið þið það út? spyr lögfræðingurinn forviða.
– Nú, við lögðum bara saman alla tímana sem þú hefur rukkað fyrir!

 

Ungur lögmaður varði útrásarvíking í einkamáli og hafði áhyggjur af því að tapa hugsanlega málinu. Hann kom að máli við eiganda stofunnar og spurði hvort hann ætti ekki að kaupa vindlakassa og viskíflösku og gefa dómaranum, til þess að fá hugsanlega hagstæðari úrslit. Gamli lögfræðingurinn sagði honum að það myndi ekkert gagnast, dómarinn væri heiðvirður og að sá ungi myndi örugglega tapa málinu ef hann reyndi eitthvað slíkt. Að lokum dæmdi dómarinn útrásarvíkingnum í vil og eigandinn sagði við unga lögfræðinginn:
– Jæja, ertu ekki ánægður að hafa ekki keypt vindlakassa og viskí handa dómaranum?
Ungi lögfræðingurinn brosti og svaraði: – En ég keypti það einmitt og lét senda honum … en ég setti bara nafnspjald frá andstæðingnum ofan í vindlakassann, með góðum kveðjum.

 

Hvað kallarðu lögmann sem er með greindarvísitölu um 100?
Háttvirtan dómara.
En hvað kallarðu lögmann sem er með greindarvísitölu um 50?
Hæstvirtan ráðherra.

 

Hver er munurinn á góðum lögmanni og slæmum lögmanni?
Jú, slæmur lögmaður getur látið dómsmál dragast í nokkur ár.
En góður lögmaður getur dregið þau enn lengur!

 

Þegar kemur að okkar eigin mistökum erum við mjög góðir málaflutningsmenn,
en þegar kemur að mistökum annarra, erum við mjög góðir dómarar.

 

Hvernig veistu að lögfræðingurinn þinn er að ljúga?
Jú, varirnar hans hreyfast!

 

Af hverju ráðast hákarlar aldrei á lögfræðinga?
Það kallast: Fagleg kurteisi.

 

Húsmóðir, endurskoðandi og lögfræðingur voru spurð: – Hvað eru 2+2?
Húsmóðirin svaraði: – Fjórir!
Endurskoðandinn svaraði: – Ég held að það séu annaðhvort þrír eða fjórir. Leyfðu mér að renna þessum tölum í gegnum bókhaldskerfið mitt einu sinni enn.
Lögfræðingurinn dregur gluggatjöldin fyrir, deyfir ljósin og spyr svo lágt: – Hversu mikið viltu að það sé?

 

Svo var það lögfræðingurinn sem hætti alfarið að ávarpa fólk!
Hann hafði eitt sinn sagt við góðan vin sinn: „Kæri Jón!“
Jón varð milljón fátækari eftir það.

 

Hugvitssamur lögfræðingur, sem varði mann sem ákærður var fyrir innbrot, reyndi þessa snjöllu vörn í réttarsalnum:
– Skjólstæðingur minn stakk aðeins handleggnum inn í gluggann og fjarlægði nokkra smáhluti. Handleggur hans er ekki hann sjálfur og ég get ekki séð hvernig hægt er að refsa öllum einstaklingnum fyrir brot framið af útlimi hans.
– Vel orðað, svaraði dómarinn. Með rökfræði þinni, þá dæmi ég handlegg ákærða í eins árs fangelsi. Hann getur fylgt handleggnum eða ekki, rétt eins og hann kýs.
Sá ákærði brosti breitt og með aðstoð lögfræðingsins losaði hann gervihandlegginn af sér — lagði hann á borðið fyrir framan dómarann — og gekk út.

 

Hversu marga lögfræðinga þarf til þess að skipta um ljósaperu?
Engan! Lögfræðingar vilja frekar halda skjólstæðingum sínum illa upplýstum!

 

Að rífast við lögfræðing er eins og að glíma við svín í drullustíu — fyrr eða síðar gerirðu þér grein fyrir því að honum finnst það skemmtilegt.

 

Tveir lögfræðingar eru staddir í banka, þegar tveir vopnaðir ræningjar ryðjast skyndilega inn. Á meðan annar ræninginn tekur peninga hjá gjaldkerunum stillir hinn viðskiptavinunum (þar á meðal lögfræðingunum) upp við vegg og hefst handa við að hirða af þeim peningaveski, armbandsúr, farsíma og önnur verðmæti. 
Allt í einu stingur annar lögfræðingurinn einhverju í lófann á hinum, í öllu fátinu.
– Hvað er þetta? hvíslar sá síðarnefndi, of óttasleginn til þess að líta í lófann.
– Þetta er bara tíuþúsundkallinn sem ég skuldaði þér frá því í gær.

 

Læknir, sem var í fríi á Rivíerunni, hitti gamlan vin sinn, sem var lögfræðingur, og spurði hvað hann væri að gera þar.
Lögfræðingurinn svaraði: – Manstu eftir einbýlishúsinu í Garðabæ, einhverri ömurlegustu fasteign sem ég hef keypt? Sko, það kviknaði í því, svo hér er ég að njóta ágóðans af brunatryggingunni. En þú? Hvað ert þú að gera hér?
Læknirinn svaraði: – Manstu eftir handónýta sumarbústaðnum, sem ég keypti fyrir norðan? Áin flæddi yfir bakka sína og ég er líka að njóta ágóðans af vatnsflóðstryggingunni.
Lögfræðingurinn spurði, gapandi hissa: – Ja hérna hér! Hvernig í ósköpunum gastu komið flóði af stað?

 

Tveir lögfræðingar voru við það að ná sáttum fyrir umbjóðendur sína.
– Sko, sagði annar, við skulum vera alveg heiðarlegir hvor við annan.
– Allt í lagi, þú fyrst! svaraði hinn.
Þar með var umræðunni lokið.

 

Lögfræðingur, sem sérhæfði sig í slysabótum, var í fríi úti á landi. Þar sem hann gekk um göturnar kom hann auga á bíl sem hafði greinilega lent í ákeyrslu, því eins og við var að búast hafði þónokkur mannfjöldi safnaðist saman við slysstaðinn. Lögmaðurinn fór af eðlisávísun og reyndi að komast að hinum slasaða, en hann komst ekki fyrir fólki sem var fyrir. Þar sem hann var mjög snjall, tók hann að hrópa hátt:
– Hleypið mér í gegn! Hleypið mér í gegn! Ég er sonur fórnarlambsins!
Mannfjöldann setti hljóðan og greiddi honum samstundis leið að bílnum. Lögfræðingurinn nánast fraus, þegar hann sá svo loks — að fyrir framan bílinn lá asni.

 

Maður nokkur gengur að borði í lessal bókasafnsins, þar sem ung kona situr ein, og segir hljóðlega: – Afsakið, er þetta sæti laust?
Konan lítur upp og segir hátt: – Nei, ég hef engan áhuga á að sofa hjá þér!
Allir í lessalnum líta á manninn. Hann gengur að öðru borði og sest þar, en er augljóslega brugðið.
Eftir nokkrar mínútur gengur konan svo til hans og segir hljóðlega: – Fyrirgefðu, en ég er að læra sálfræði og ég er að kanna viðbrögð fólks við óvæntum, vandræðalegum aðstæðum.
Maðurinn hrópar þá upp yfir sig: – Tuttugu þúsund fyrir klukkutímann? Nei takk, það kemur ekki til greina!
Allir í lessalnum líta aftur upp og nú á konuna sem er orðin eldrauð í framan.
Þá hvíslar maðurinn að henni: – Sko … ég er að klára lögfræðinám og ef það er eitthvað sem ég kann, þá er það að láta fólk fá sektarkennd!

 

Dag einn í tíma í lagadeildinni, nánar tiltekið í samningsrétti, spurði lagaprófessorinn einn af betri nemendum sínum: – Ef þú ætlar að gefa einhverjum appelsínu, hvernig myndir þú bera þig að því?
Nemandinn svaraði: – Ég myndi segja: „Gjörðu svo vel, hér er appelsína.“
Prófessorinn lokaði augunum, sveigði höfuðið upp á við og sagði: – Nei, nei, nei! Hugsaðu eins og lögfræðingur!
Nemandinn sagði þá: – Allt í lagi, ég myndi segja við hann: „Ég afhendi hér með og miðla í einu og öllu, þessari eign minni — ásamt rentu, réttindum, kröfum, titli, skilyrðum og kosti í téðu glóaldini, ásamt meðfylgjandi berki, safa, aldinkjöti og steinum [hér eftir kallaðir fræ] sem kunna að vera til staðar, svo og öllum almennum réttindum og fullri heimild til að bíta, skera, frysta og/eða borða téða eign, sem og fulla heimild til að gefa hana, selja eða leigja öðrum málsaðilum, skyldum eða óskyldum, með eða án aldinkjöts, safa, barkar og fræja, allt hér fyrir eða í kjölfarið eða í hvaða skilmála sem er — hvers konar eðlis eða þvert á móti, skuldbindingarlaust að öllu leyti.“

 

Lögmaðurinn vaknaði eftir skurðaðgerðina á sjúkrahúsinu. Það fyrsta sem hann sagði var: – Af hverju er dregið fyrir alla glugga á stofunni?
Hjúkrunarkonan setti upp sitt blíðasta bros og sagði: – Það kviknaði í byggingunni hér beint á móti … og við vildum ekki að það fyrsta sem þú héldir, þegar þú vaknaðir, væri að þú hefðir dáið.

 

Kona og ung dóttir hennar voru á gangi í gegnum kirkjugarð, þegar sú stutta spyr mömmu sína: – Mamma, eru stundum tveir grafnir í sömu gröf?
– Nei, svaraði mamma hennar. – Það er aldrei gert. Af hverju spyrðu að því?
– Jú, það stendur þarna á legsteininum: „Hér hvílir lögfræðingur og heiðarlegur maður …“

 

Hvað skyldu vera til margir brandarar um lögfræðinga?
Þrír — allt hitt eru sannar sögur!

 

Hver er munurinn á endurskoðendum og lögfræðingum?
Endurskoðendurnir vita vel hvað þeir eru leiðinlegir!

 

Af hverju skapaði Guð lögfræðinga?
Svo að fasteignasalar hefðu einhverja til að líta niður á!

 

Hver er munurinn á trampólíni og lögfræðingi?
Þú ferð úr skónum áður en þú hoppar á trampólíninu!

 

Hvaða munur er á lögum og lygum?
Einn bókstafur!

 

Hver er munurinn á lögfræðingi og Rolex-úri?
Þú borgar lögfræðingnum meira fyrir tímann!

 

Hvernig var koparvírinn fundinn upp?
Það voru tveir lögfræðingar, í gamla daga, að rífast um fimmeyring!

 

Hvar finnurðu bestu lögfræðingana?
Í kirkjugarðinum!

 

Lögfræðingur, sem hafði nýlokið námi, var sendur út á land til þess að verja skjólstæðing sem hafði verið ákærður fyrir þjófnað. Eftir stutt réttarhöld vann hann málið, skjólstæðingur hans sýknaður og sleppt úr varðhaldi. Hann var svo ánægður með árangurinn að hann sendi stutt skilaboð úr símanum sínum, til eiganda stofunnar, á leið sinni úr réttarsalnum: – Réttlætinu fullnægt!
Eigandinn svaraði um hæl: – Áfrýjaðu strax!

 

Maður nokkur kemur inn á lögfræðistofu og spyr hvað það kosti að fá að tala við lögfræðing.
– Það kostar tuttugu þúsund krónur að spyrja þriggja spurninga, var svarið.
– Tuttugu þúsund? Er það ekki nokkuð hátt verð?
– Jú, og hver er svo þriðja spurningin þín?

 

Lögfræðingurinn var nýbúinn að fá sér hund og var að segja frá því á stofunni, hversu vel hann væri búinn að þjálfa hundinn:
– Á hverjum morgni, þá fer hann til dæmis og sækir Moggann fyrir mig.
– Það er nú ekki svo ýkja merkilegt. Margir hundar gera það fyrir eigandann sinn, sagði einhver starfsmaðurinn frekar tómlátur.
– Já, svaraði lögfræðingurinn drýldinn, en ég er ekki einu sinni áskrifandi að Mogganum!

 

Þegar páfinn lést, hér um árið, fór hann rakleitt til himnaríkis og var úthlutað lítilli herbergiskompu, með mjóu trérúmi, kommóðu og trékolli. Daginn eftir fer hann í gönguferð um himnaríki og sér risastóra höll við enda einnar götunnar. Hann spyr engil að því, hver búi þarna, og er tjáð að það sé lögfræðingur sem búi þar.
Það fýkur í páfann og hann rýkur beint til Lykla-Péturs og spyr hvað þetta eigi eiginlega að þýða.
– Ég var talsmaður Guðs á jörðinni og fórnaði öllu í lífi mínu fyrir hann. Svo fæ ég smákompu hér en einhver lögfræðingur höll uppi á hæð, með sundlaug, glæsibifreiðum og þjónum!
– Jú, sjáðu til, segir Lykla-Pétur. – Ef þú skoðar málið betur, þá er hér fjöldinn allur af páfum … en bara einn lögfræðingur!

 

Það var svo kalt hér í vetur að ég sá lögfræðing labba niður Laugaveginn … með hendurnar í sínum eigin vösum!

 

Lögmaðurinn segir við hinn ákærða: – Ég er með góðar fréttir og slæmar fréttir.
– Hverjar eru slæmu fréttirnar? spyr hinn ákærði.
– Það fannst blóð úr þér á vettvangi glæpsins, sem hefur verið sannreynt með DNA-rannsókn.
– En hverjar eru þá góðu fréttirnar?
– Þú ert ekki með nema um 4,5 í kólesteróli.

 

Hinn ákærði er alls ekki ánægður hvernig málin eru að þróast í réttarhaldinu, svo hann ákveður að gera sitt til að valda dómaranum erfiðleikum.
– Hvar vinnurðu? spyr dómarinn.
– Hér og þar, svarar hinn ákærði.
– Og við hvað starfarðu?
– Við hitt og þetta.
– Ég gefst upp, segir dómarinn þá. – Stingið manninum inn!
– Ha? Bíddu … og hvenær slepp ég svo út?
– Þá og þegar!

 

Úr auglýsingu frá lögmannsstofu í Bandaríkjunum:
Bara af því að þú gerðir það, er ekki þar með sagt að þú sért sekur!

 

Hvað nota lögfræðingar sem getnaðarvörn?
Persónuleikann sinn!

 

Fjárfesti nokkurn vantaði lögfræðiráðleggingar og tók viðtal við ungan lögfræðing sem var nýlega útskrifaður.
– Myndirðu segja að þú sért  heiðarlegur?
– Heiðarlegur? Já, það er ég svo sannarlega! Ég get sagt þér það að þegar ég fór í lögfræðina lánaði pabbi minn mér fimm milljónir fyrir náminu og ég endurgreiddi honum alla upphæðina, með vöxtum, strax eftir fyrsta málið sem ég varði.
– Og hverskonar mál var það?
– Það var þegar pabbi höfðaði mál gegn mér til að fá peningana endurgreidda.

 

Lykla-Pétur tók eftir því að Skrattinn hafði fært girðinguna, sem liggur á milli Himnaríkis og Helvítis, fram um fjóra metra. Hann lét Guð vita af þessu og Guð hringdi umsvifalaust í Skrattann.
– Þú veist að þetta er ólöglegur gjörningur, þú mátt ekki taka þér landsvæði með því að færa girðinguna svona. Ef þú færir hana ekki tafarlaust til baka, þá fer ég í mál við þig!
Skrattinn fékk óstöðvandi hláturskast og náði svo loksins að stynja upp, flissandi: – Og hvar í ósköpunum ætlar þú að fá lögfræðing í það?

 

Dómarinn, í réttarsalnum: – Ég vil minna verjandann á, að hann hefur heimild til að segja: „Ég mótmæli!“ en ekki aftur og aftur: „Það er sko helvítis kjaftæði!“

 

Læknir nokkur var staddur á ættarmóti og sat einn úti í horni með bjórglasið sitt. Fjarskyldur frændi hans heilsaði honum og spurði af hverju hann sæti þarna einn, hvort ekki væri allt í lagi.
– Æ, það er bara þannig að langflestir vita að ég er læknir og hvar sem maður kemur þá fer fólk að lýsa einkennum — vill fá ráðleggingar og upplýsingar um hvað gæti verið að þeim. Ég er bara búinn að fá mig fullsaddan af þessu. Er ekki hægt að stoppa þetta og fá að vera í friði?
– Þetta ætti nú ekki að vera erfitt, sagði frændinn, sendu fólki sem biður um ókeypis ráðleggingar, reikning fyrir veittri þjónustu. Eftir að þetta spyrst út, þá færðu örugglega að vera nokkurn veginn í friði með þetta, en þeir fáu sem fá ráðleggingar frá þér borga fyrir þjónustuna, sem er bara sanngjarnt.
Læknirinn þakkaði frænda sínum og fyrsta verk hans, þegar hann kom á læknastofuna eftir helgina, var að setjast niður við tölvuna og skrifa út reikninga til þeirra sem höfðu fengið ráðleggingar hjá honum á ættarmótinu.
Allt í einu heyrðist píp í tölvunni, þar sem nýr tölvupóstur hafði borist. Það var 100.000 króna reikningur frá lögmannsstofu frændans, fyrir lögfæðiráðgjöf á helgartaxta.

 

Dómarinn, við verjandann:
– Mér er alveg sama hvað stendur á Internetinu — lögmál Murphy's eiga ekki við hér í réttarsalnum!

 

Lögmaðurinn, við skjólstæðinginn:
– Hey, ekki skamma mig! Ég bý ekki til lögin — ég fer bara í kringum þau!

Lögfræðingurinn í réttarsalnum:
– Skjólstæðingur minn er saklaus af öllum ákærum — og lofar að gera þetta aldrei aftur!

 

Á jólakorti frá lögmannsstofunni:
Lögfræðingar stofunnar óska ykkur [en ábyrgjast ekki á neinn hátt] gleðilegra jóla og farsæls nýs árs!  

 

Maður nokkur deyr og er sendur í neðra. Skrattinn tekur á móti honum og þar sem þeir ganga á milli brennisteinspytta og emjandi syndara, í átt að vistarverum mannsins, sér hann mann sem hann hafði hitt í lifanda lífi — og vissi fyrir víst að hann var lögfræðingur. Sá liggur við hlið gullfallegrar konu og er að kyssa hana og faðma af mikilli áfergju.
– Nei, þetta er ósanngjarnt! kveinar maðurinn. – Ég þarf að kveljast hér um alla eilífð, en þessi lögfræðingur fær að eyða henni með svona fallegri konu!
– Þegiðu! hvæsir Skrattinn og slær til mannsins. – Hvernig dirfist þú að efast um refsingu þessarar konu?

 

Læknir segir sjúklingi sínum að hann eigi aðeins sex mánuði eftir ólifaða.
– Er eitthvað sem ég get gert? spyr sjúklingurinn vondaufur.
– Já, ég myndi ráðleggja þér að giftast lögfræðingi. Það verða sex lengstu mánuðir lífs þíns!

 

Náungi, greinilega nokkuð við skál, gengur inn á bar og öskrar:
– Lögfræðingar eru bjánar!
Allir viðstaddir litu upp, en maður sem sat innarlega stóð á fætur og sagði:
– Ég mótmæli þessari móðgandi staðhæfingu og skora á þig að biðjast afsökunar og taka orð þín til baka!
– Nú? Ertu lögfræðingur? spyr sá ölvaði.
– Nei, svaraði maðurinn. – Ég er bjáni!

 

Tveir ribbaldar króuðu mann af niðri í bæ. Þeir ógnuðu honum og kröfðust þess að hann léti þá fá peninga.
Maðurinn reyndi allt sem hann gat til að sleppa frá þeim og að lokum lét hann þá fá 5.000 kr. seðil úr veskinu sínu, gegn því að sleppa frá þeim.
Þegar þeir voru komnir nokkuð frá honum, sagði annar ribbaldinn:
– Mér fannst ég kannast eitthvað við þennan mann, svo ég vildi ekki taka neina sénsa. Held að þetta sé lögfræðingurinn sem kom mér í fangelsi fyrir nokkrum árum.
Þá sagði hinn: – Þetta var ekki svo slæmt, við erum allavega með fimmþúsundkall núna í heildina.
– Já, ég vissi að við hefðum átt að sleppa þessu, sagði hinn þá. – Sko … við áttum tuttugu þúsund áður en við mættum honum!

 

Það eru til tvennskonar lögfræðingar.
Þeir sem þekkja lagabókstafinn — og þeir sem þekkja dómarann.

 

Hvað þarf marga lögfræðinga til að skipta um ljósaperu?
Ja …  eins marga og þú hefur efni á!

 

Ritari, lögfræðinemi og lögfræðingur, sem unnu saman á lítilli lögfræðistofu, fóru saman í hádeginu út í almenningsgarðinn hinum megin götunnar, til að snæða nestið sitt í góða veðrinu. Þau sjá gamlan olíulampa sem þau taka upp og allt í einu birtist andi úr lampanum.
– Venjulega gef ég þrjár óskir, svo ég skal gefa hverju ykkar eina ósk, segir andinn.
– Ég fyrst, ég fyrst, segir ritarinn. – Ég vil vera á Balí, í flottri einkasnekkju, með nóg af mat og víni, laus við allar áhyggjur í heiminum! — og ritarinn hverfur samstundis.
– Nú ég, nú ég, segir laganeminn. – Ég vil vera á Hawaii, í sólbaði á ströndinni, með einkanuddara og endalaust af ísköldu piña colada í glasinu! — og laganeminn hverfur líka.
Og hvað vilt þú? spyr andinn lögfræðinginn.
Lögfræðingurinn segir: – Ég vil fá ritarann og lögfræðinemann aftur á skrifstofuna eftir matarhléið þeirra — á mínútunni klukkan eitt!

 

Harður lögfræðingur skipaði vitninu að svara spurningu annað hvort játandi eða neitandi.
Vitnið sagðist ekki geta það, því sumum spurningum væri ekki hægt að svara á þann hátt.
– Það er víst hægt. Ég skora á þig að spyrja mig hvaða spurningar sem er — og ég skal svara annað hvort játandi eða neitandi, segir lögfræðingurinn kokhraustur.
– Allt í lagi, segir vitnið þá. – Ertu hættur að lemja konuna þína?

 

98% lögfræðinga veita öllum hinum slæmt orðspor.

 

Fulltrúi góðgerðasamtaka áttaði sig á því að þau hefðu aldrei fengið framlag frá öflugasta lögfræðingi bæjarins, svo hann mætti á ríkmannlega lögfræðistofuna og óskaði eftir framlagi, með orðunum: – Getur verið að þótt tekjur þínar séu yfir 200 milljónir á ári, þá hafirðu aldrei gefið neitt til almennra góðgerðamála? 
Lögfræðingurinn svaraði um hæl: – En vissirðu það að móðir mín liggur fyrir dauðanum, eftir langvarandi veikindi, með himinháa læknis- og lyfjareikninga, sem eru langt yfir greiðslugetu hennar? 
Fulltrúinn hrökk við og stamaði: – Ehhh … ne… nei, það vissi ég ekki. 
– Og í öðru lagi, vissirðu að bróðir minn er fatlaður — bæði sjónskertur og í hjólastól, eftir að það var ekið á hann á gangbraut — og ófær um að framfleyta sjö manna fjölskyldunni sinni? 
Skömmustulegur byrjar fulltrúinn að stama eitthvað, en lögmaðurinn grípur fram í fyrir honum og segir:
– Og í þriðja lagi, vissirðu að eiginmaður systur minnar lést úr krabbameini, frá henni auralausri og með íbúðina veðsetta upp í rjáfur, með þrjú börn, þar af tvö sem eru fötluð og þurfa á sífelldri umönnun og aðstoð að halda? 
Niðurlægður fulltrúinn, gjörsamlega koðnaður niður, umlar: – Nei, ég biðst afsökunar … ég hafði enga hugmynd um þetta. 
Þá segir lögfræðingurinn: – Nú, af hverju í ósköpunum ætti ég að láta ykkur fá einhverja peninga — fyrst þau fá ekki krónu frá mér?

 

Lögmaður: - Hver er afmælisdagurinn þinn?
Vitni: - 18. júlí.
Lögmaður: - Hvaða ár?
Vitni: - Á hverju einasta ári.   

   

Lögmaður: - Hvað er sonur þinn gamall, þ.e. — þessi sem býr enn hjá þér?
Vitni: - 35 eða 36 ára, ég man það ekki alveg ...
Lögmaður: - Hve lengi hefur hann búið hjá þér?   
Vitni: - Í 45 ár.

   

Lögmaður: - Hvað var það fyrsta sem eiginmaður þinn sagði við þig í morgun?
Vitni: - Hann sagði: „Hvar er ég, Sigrún?“
Lögmaður: - Og af hverju varstu óróleg yfir því?
Vitni: - Af því að ég heiti Jóhanna.

   

Lögmaður: - Segðu mér læknir, er það ekki svo að ef að einstaklingur deyr í svefni þá veit hann það ekki fyrr en morguninn eftir?
Vitni: - Náðirðu örugglega lögmannsprófinu?

   

Lögmaður: - Yngsti sonurinn, þessi sem er tuttugu og eins árs, hve gamall er hann?
Vitni: - Tjah ... hann er 21 árs.

   

Lögmaður: - Varstu á staðnum þegar ljósmyndin var tekin af þér?
Vitni: - Ertu að grínast í mér?

   

Lögmaður: - Svo barnið var getið þann 8. ágúst?
Vitni: - Já.
Lögmaður: - Hvað gerðir þú á þeim tímapunkti.
Vitni: - Eh ... ég var að njóta ásta.

   

Lögmaður: - Hún átti sem sagt … þ rjú börn, ekki satt?
Vitni: - Jú.
Lögmaður: - Hve margir þeirra voru drengir?
Vitni: - Enginn þeirra.
Lögmaður: - Var einhver þeirra stúlka?
Vitni: - Ertu að bulla í mér? Dómari ég held ég þurfi nýjan lögmann. Má ég fá nýjan lögmann?   

   

Lögmaður: - Hvenær lauk fyrsta hjónabandi þínu?
Vitni: - Við andlátið.
Lögmáður: - Við andlát hvers?
Vitni: - Ja, segðu mér … við andlát hvers heldur þú að því hafi lokið?

   
Lögmaður: - Geturðu lýst áður nefndum einstaklingi?
Vitni: - Hann var meðallagi hár, dökkhærður og skeggjaður.
Lögmaður: - Var þetta kona eða karl?
Vitni: - Gettu!

   

Lögmaður: - Læknir, hve margar krufningar hefur þú framkvæmt á látnu fólki?
Vitni: þetta? - Allar mínar krufningar hafa farið fram á látnu fólki. Viltu að ég endurtaki þetta?
Lögmaður: - Manstu á hvaða tímapunkti þú krufðir hinn látna?
Vitni: - Krufningin hófst um kl. hálfníu um kvöldið.
Lögmaður: - Var umræddur maður látinn á þessum tímapunkti?
Vitni: - Nei, hann lá á borðinu og velti fyrir sér af hverju ég væri að kryfja hann.

   

Lögmaður: - Ertu í aðstöðu til að skila þvagprufu?
Vitni: - Eh ... ert þú í aðstöðu til að bera fram þessa spurningu?

   

Lögmaður: - Læknir, áður en þú hófst krufninguna, athugaðir þú hvort púls fyndist á hinum látna?
Vitni: - Nei.
Lögmaður: - Athugaðir þú blóðþrýstinginn?
Vitni: - Nei.
Lögmaður: - Athugaðir þú hvort viðkomandi andaði?
Vitni: - Nei.
Lögmaður: - Svo það getur því hugsast að hinn látni hafi verið á lífi þegar þú hófst krufninguna?
Vitni: - Nei.
Lögmaður: - Hvernig getur þú verið viss um það læknir?
Vitni: - Af því að heilinn úr honum var í íláti á skrifborðinu mínu.
Lögmaður: - Ég skil, en getur það samt sem áður hugsast að sjúklingurinn hafi verið á lífi?
Vitni: - Já, það getur verið að hann hafi verið á lífi … og starfað sem lögmaður.

 

Ef þér finnst þessir lögfræðingabrandarar fyndnir — reyndu þá að hringja í grínista næst þegar þú lendir í fangelsi — til að láta að leysa þig út!